Inga Björns blogg

þriðjudagur, október 26, 2004

Jamm og Jæja

Jamm, jamm

Hér er allt við það sama. Nú er maður kominn úr sumarfríinu og í gömlu rútínuna, vinna sofa og borða. Ágætt samt, því eftir fyrstu 2 vikurnar í sumarfríinu er manni farið að leiðast meira en hollt getur talist.

Kíkti aðeins út með Ísarri og Palla á föstudagskvöldið og var bara mjög gaman hjá okkur. Byrjaði heima hjá Ísarri og þar fengum við nokkra létta, og svo kíktum við á forsetann og Viktor og Café Kozy. Dönsuðum frá okkur allt vit á forsetanum en vorum aðeins rólegri á hinum stöðunum enda ekkert hægt að dansa þar. Fékk lánaðan heimasímann hjá Ísarri og hringdi í Þorgerði stórvinkonu mína, en hana hittir maður sjaldan núorðið þar sem hún er jú kasólétt.

Svo var laugardagurinn bara rólegur og fór að mestu leyti í "operation". Sama saga á sunnudeginum og svo var það bara vinnan á mánudeginum. Og hér er ég búinn að sitja síðan, eða svona að mestu leyti, kíkti einmitt aðeins heim í mat og svo svaf ég á mínu græna þar til nýr vinnudagur hófst. Missti af rútunni, hnuss, eitthvað hefur hann verið að bruna í morgun.

Horfði á The Day After Tomorrow í fyrradag og svo áfram í gær þar sem ég náði ekki að klára hana. Nokkuð góð mynd bara, en kom mér samt mikið á óvart að það virtist vera afar auðvelt að fljúga um á þyrlum í öllum hvirfilbyljunum. Merkilegt.

miðvikudagur, október 20, 2004

Ný vinna, Seinkanir og flugrúta

Jæja, jæja, þá er ég kominn í nýja starfið og hellingur að læra. Fullt af flóknum tölvukerfum og svo framvegis sem eru samt ekkert svo flókin við nánari skoðun enda framleidd af SAS og eru þar af leiðandi sænsk og idiotproof.

Annars er allt í bullandi seinkun hér eins og fyrri daginn og Osló enn á stæði þrátt fyrir að eiga að hafa farið fyrir 2 klst síðan. Iceland Express vélin sem alltaf bilar er að sjálfsögðu biluð líka og fer ekkert nærri því strax. Icelandair er hins vegar að standa sig aðeins betur í dag heldur en Expressinn og skipti bara um vél og er hún að fara innan skamms, Express hins vegar ætlar bara að láta sitt fólk bíða þangað til vélin er komin í lag.

Í gær tókum við Siggeir vinur minn okkur til og tókum rútuna í vinnuna og komumst að því að það er ágætis ferðamáti. Tökum hana við Fjörukránna í Hafnarfirðinum um kl 05:00 og erum komnir suðureftir áður en vinnan hefst kl 05:30. Tökum svo rútu frá KEF kl 17:45 og erum komnir heim um 18:20 eða svo. Á þessum fyrsta degi hins vegar var svo slæmt veður á Akureyrinni að Flugfélagið hafði ekkert getað flogið allan daginn og leigði því þotu frá Flugleiðum til að geta farið með alla í einni ferð í stað fjögurra og átti sú vél að fara til Reykjavíkur frá Keflavík einnig kl 17:45. Þannig að við vorum bara sniðugir og tókum flugið í bæinn í stað rútunnar enda mun fljótlegra. Þetta var nú með verstu flugferðum sem ég hef upplifað og er ánægður með að hún var ekki lengri en 5 mínútur. Endaði svo með því að flugstjórinn sem ekki verður nefndur á nafn hér, hreinlega tók sig til og krassaði vélinni í brautina. Anna vinkona þekkir til lendinga SAS og það get ég sagt þér Anna mín að sú lending var brandari miðað við þessa. Ég átti nú ekki von á því að komast lifandi frá þessu eða þannig. Langt þangað til ég fæ far með þessum manni aftur.

Nú er Siggeir í flugmanns inntökuprófi hjá Icelandair og óska ég honum hér með góðs gengis.

Læt þetta duga í bili.

föstudagur, október 15, 2004

Varð bara að skella þessu inn.....

.....til að gera sumt fólk afbrýðissamt. Fór sem sagt á www.quizilla.com og tók próf hvaða 80's tónlistarmaður ég væri. Og hér er niðurstaðan. MY IDOL!!!


You're going to let it be known that you are a sexual being. Some people may be offended by what you do, some will be amused, and some will be turned on. In the future, you will mysteriously acquire a British accent.

Enn af hálsbólgu og afar ópatent sænsku heilbrigðiskerfi!

Góðir hálsar

Ég er afar ósáttur við heilbrigðiskerfi Svía í dag og þykir það í hæsta máta Ópatent. Ástæðan fyrir þessu er sú að litli frændi minn (Jóndi Sverra og Dönu) er búinn að vera með eitthvað í hálsinum undanfarið, og við nánari skoðun úrskurðaði læknirinn hann með barnaveiki svona alveg út í bláinn án þess að skoða málið neitt nánar. Að sjálfsögðu var familían öll í sjokki, enda barnaveiki stórhættuleg og dregur yfirleitt til dauða (samkvæmt Landlæknavefnum allavega). En þau fóru sem sagt með hann á spítalann í nánari athugun og þá kom í ljós að hann er bara með barnaastma. Og er þar stór munur á. En að láta sér detta í hug að hræða svona líftóruna úr fólki finnst mér afar ópatent eins og áður sagði og óábyrgt af læknum. Og skora ég hér með á sænska lækna (og Íslendinga sem hafa stúderað í Sverige, hafi þeir lært þessar aðferðir) að skoða sinn gang og endurskoða aðferðir sínar.

Af minni eigin hálsbólgu er það hins vegar að frétta að hún er loks á undanhaldi og er horfin með öllu hægra megin, þar sem meinið var fyrst. Það er örlítill vottur af henni vinstra megin ennþá, en ég vonast til þess að hún verði farin þegar ég vakna á morgun. Sem sagt engin kirtlataka strax hjá mér.

Kláraði Starquest heimsreisuna í FS í dag og er errið núna í Washington og á ég bara eftir að fljúga henni til Bournemouth, rífa úr henni sætin og svo direct Keflavík.

Annars bless í bili.....

miðvikudagur, október 13, 2004

Hálsbólga, hálsbólga, hálsbólga!!

Enn er hálsbólgan við lýði og virðist engann veginn vera á undanhaldi. Þannig að annaðhvort virka lyfin ekki, eða þá allavega mjög hægt. Nú er ég búinn með 2 daga af þessum blessaða penicillin kúr og það er ekki einu sinni farið að slá aðeins á hana hvað þá meira. Liggur við að ég segi að það sé farið að slá í hana. En við vonum nú að hún lagist ekki mikið seinna en á morgun því ef ég er enn jafn slæmur þegar ég vakna á föstudaginn, verð ég að hringja aftur í lækninn og þá blasir við hálskirtlataka. Og mig dreymdi einmitt í nótt að ég færi í slíka aðgerð og sökum læknamistaka voru raddböndin tekin í staðinn og ég varð mállaus, við vonum nú að ekki komi til þess, enda skrafhreifinn ungur maður hér á ferð.

Annars er þetta nú orðið hálfgert pestarbæli hérna á Ölduslóðinni. Ég ligg hér með mína frægu hálsbólgu og Edda systir er nú eitthvað búin að vera lasin af gubbupest síðan í gærkvöld, en er nú öll að braggast að sögn. Hún fór nú samt á vídeóleiguna áðan og kom heim hvítari en draugur, þannig að við sjáum nú til með það.

Horfði með mömmu á afar furðulegan þátt á Ztelpuztöð 2 áðan: "Mile High". Tók þessi þáttur við af Footballers Wifes og fjallar um áhafnir hjá breska flugfélaginu "Fresh". Nú það er tæplega í frásögur færandi nema hvað að þetta flugfólk virðist djamma meira en nokkrum manni er hollt, fyrir utan hvað þau vinna ægilega stuttann vinnudag (eitt flug frá London til Spánar og svo crewrest í sólarhring, hmmmmmmmmm). Er þetta fólk á kafi í eiturlyfjum og ég veit ekki hvað og hvað og er allt sýnt í þessum þáttum, sem dæmi má nefna að í þessum fyrsta þætti var sýnt eitt stykki typpi með fullt af pinnum og drasli í og nokkur brjóst ásamt fólki í innilegum samförum. Skrýtinn þáttur þar á ferð.

Annars hefur ekki margt gerst í dag annað en þetta enda hálsbólgan alls ráðandi og ekki fer ég neitt. Jú pabbi skilaði fyrir mig hnakkabílnum og fékk Lufthansa aftur tilbaka í staðinn. Búinn í C-check. Einnig fékk ég Siggeir til að tékka fyrir mig á vaktaskránni og sjá hvort ég væri kominn inn á hana í nýja djobbinu mínu. Og jú viti menn, búið að setja mig á hina vaktina, úff, sem er svo sem allt í lagi af því þetta er inni í Load Control en ekki á hlaðinu. Hefði þetta verið B/D vakt á hlaði hefði ég hætt samdægurs. En þetta reddast svona. Fínir yfirmenn og soleis. Sem sagt, byrja í Load Control á miðvikudaginn eftir viku.

þriðjudagur, október 12, 2004

Furðuleg blogg klukka

Bara aðeins að tékka hvaða tími kemur hérna. Nenni ómögulega að vera blogga á morgun, í dag if you catch my drift. En nú ætti þetta að vera rétt!!

Chicago, börn, hnakkabíll, hálsbólga og lööööööööööng bið

Ég skal segja ykkur það!! Fór til læknis í kvöld og beið þar langalengi eftir að komast að, sem var soldið merkilegt því að ég hringdi fyrr í dag og spurði hvort ekki væri svona vaktlæknir að vinna á Sólvangi eins og var hér áður fyrr. Jú þær héldu nú það, og ekki nóg með það, heldur væri komið svona sniðugt kerfi þar sem maður getur pantað tíma hjá vaktlækni svo maður þurfi ekki að bíða jafn lengi. Þannig að ég hringdi aftur rétt fyrir kl fjögur og var sagt að ég mætti bara koma um 6-leytið, þá væri orðið minnst að gera hjá þeim. Nú ég kom kl sex og beið til kl 19:40, þá var loksins komið að mér. Það var nú ekki seinna vænna því á móti mér sátu þrefaldar mæðgur, sem sagt amma, mamma og dóttir, og voru þær eldri að reyna að kenna þeirri yngstu með því að benda á allt sem þær sáu og segja: "Hvað er þetta? Hvað er þetta? Hvað er þetta? Blessað barnið reyndi að svara eftir bestu getu og dauðleiddist greinilega. Stundum gat það ekki svarað og þá sögðu þær nei nei, þetta er api. Nú ef þið vitið svarið, veriði þá ekki að drekkja aumingjans barninu í spurningaflóði. Nú svo ég fór inn og talaði þar við unga læknastúlku sem tók streptókokkapróf og sagði að það væri neikvætt en hún ætlaði samt að láta mig á sýklalyf þar sem það væri orðið svo langt síðan hún hefði séð svona "ljótan" háls. Þakka pent fyrir það. Þannig að nú ætti mér að fara batna hálsbólgan sem loksins ákvað að vera í öllum hálsinum en ekki bara hægra megin þegar ég vaknaði.

Anne, fyrrum sambýliskona mín (ekki þannig samt), var að skíra um helgina og fór öll familían á Blönduós til að vera viðstödd nema ég, þar sem ég ætlaði mér jú að mæta til afmælisveislu á laugardagskvöldinu sem ekkert varð úr eins og áður hefur komið fram. Hann heitir Aron Máni strákurinn og er Traustason. Sem sagt með upphafsstafina AMT sem ég er ekki frá því að standi fyrir Almenna Tryggingafélagið. Heppinn!! Annars á ég nú alveg eftir að bregða mér norður og kíkja á stráksa. En móður og barni heilsast vel að mér skilst.

En ekki heilsast honum Kára Þormar nágranna mínum svo vel heyrist mér. Mamma kom heim úr vinnuni í gær og þá var sjúkrabíll fyrir utan hjá okkur, og sama ljósið hefur logað í forstofunni hjá honum síðan, þannig að ég dreg þá ályktun að hann hafi farið með bílnum. Fínn karl hann Kári og vonum við að honum batni fljótt og að ekkert alvarlegt sé á ferðum því eins og lagið segir: "Allir þurfa góða granna".

Ætlaði að fara með hnakkabílinn og skila honum í dag, en ég fékk hann einmitt fyrir um viku síðan þegar ég ákvað að senda Lufthansa bílinn í C-check eða stórviðhald fyrir veturinn. Fékk þennan líka forláta Hyundai Coupé í staðinn sem er sannkallaður hnakkabíll með spoiler og alles (sem by the way Hnakkar, gerir ekkert fyrir bíla, en er hannað sem lyftispillari fyrir flugvélar eða "Lift Spoiling Device" og sér til þess að þær "hætta að fljúga" þegar þær lenda) og er mér búið að líða eins og fífli á götum borgarinnar síðan. Enda eins langt frá því að vera hnakki og hægt er. Sit bara náhvítur í bílnum og hlusta á Létt 96,7 í vinnugallanum mínum. En nú er sem sagt Lufthansa tilbúinn og er reyndar búinn að vera það síðan á föstudag en þá var ég að vinna og komst ekki að sækja hann, og síðan er ég búinn að liggja í hálsbólgunni slæmu. En nú er hnakkabíllinn að verða bensínlaus og kominn tími til að skila honum.

Eitt að lokum, skellti disk í DVD spilarann í nótt áður en ég fór að sofa og horfði á Chicago sem ég keypti mér fyrir einhverjum mánuðum síðan en hef enn ekki þorað að horfa á vegna ótta við að þetta væri eitthvað svona Moulin Rouge dæmi, en hún kom "skemmtilega" á óvart. Stórgóð mynd og mæli ég með henni í alla staði. Á morgun kemur svo út mynd sem ég sá auglýsingaposter um í Odense hér fyrr á árinu: Connie & Carla, eftir Nia Vardalos sem er jú bara snillingur. Hún leikur annað aðalhlutverkið en Toni Collette leikur hitt og er jú alltaf gaman að henni líka. Gæti orðið skemmtileg mynd. Svo á fimmtudaginn kemur Super Size Me, og hana verður maður náttla að sjá.

En nóg í bili.

Varúð, dularfull hálsbólga á ferð!!

Jæja, þá get ég bloggað eitthvað meira en bara kynninguna mína. Var búinn að krota hana niður og publisha og ætlaði að skrifa eitthvað um daginn í dag en þá fattaði ég allt í einu að kynni ekkert að búa til nýtt post. Og hvað gera menn þá annað en að bíða eftir að Palli komi heim til sín og reddi hlutunum fyrir mann. Því þrátt fyrir að vera flugmaður þá er ég ekkert sérlega tæknivæddur!!

Hitt er annað mál, að síðan á laugardagsmorgunn er ég búinn að þjást af afar dularfullri hálsbólgu og vara hér með við henni. Hún lýsir sér þannig að hún er bara öðru megin í hálsinum, sem sagt hægra megin. Anna stakk upp á því að kannski væri bara enginn kirtill vinstra megin, en ég held faktískt að ég mundi vita af því ef svo væri. Maður veit samt aldrei, en þetta er samt í fyrsta skipti sem ég hef bara fengið hálsbólgu öðru megin. Yfirleitt fylgir svo mikil vöðvabólga af allri rúmlegunni þegar ég fæ hálsbólgu að hún er komin allann hringinn á endanum.

Fyrir vikið missti ég af afmælisveislu Önnu og Palla á laugardagskvöldið og er ég viss um að mín hafi verið sárt saknað, allavega saknaði ég þeirra! Reyndi svo sem að fara og lagði af stað, en varð fárveikur þegar í Garðabæinn var komið, enda frekar veiklulegur bær, og neyddist til að snúa við. Væri nær að leggja eina af þessum frægu Hafnfirsku hjáleiðum framhjá þeim bæ. En Hafnarfjörður er sem sagt yfirfullur af hjáleiðum þessa dagana og illt að komast leiðar sinnar. Frétti samt að hefði verið voða gaman í veislunni. Kem bara á næsta ári krakkar!!

En meira af laugardagskvöldinu er það að segja að þar sem ekkert varð úr afmælisveislum, ákvað ég að að glápa bara á einhverja bíómynd og eftir langa umhugsun varð fyrir valinu Moulin Rouge á DVD sem ég keypti á sem betur fer ekki meira en 1.000 krónur í ELKO um mánaðamótin. Og ég segi og skrifa, þetta hlýtur að vera sú allra lélegasta mynd sem ég hef um æfi mína séð. Nicole Kidman í hlutverki hóru sem fór henni reyndar nokkuð vel enda alla tíð drusla verið að manni skilst á tabloidunum. Og enginn leit heimskulegri út á Emmy verðlaununum en þegar hún var að kynna bestu leikara í aðalhlutverki og á listanum voru Tom Cruise, Russell Crowe og hinn dísæti Jude Law ásamt einhverjum 2 öðrum. Og það verður víst ekki af honum Ewan McGregor tekið að hann er jú alltaf myndarpiltur, og ágætis leikari, en að láta þetta fólk klifra upp á húsþök og reyna að syngja, úfffffffff!!!! Í hvert skipti sem hann opnaði munninn fékk ég svo mikla hlustaverki að ég hélt á tímabili að ég væri kominn með eyrnabólgu ofan á hálsbólguna. En svo slæmt var það nú ekki. Nicole var svona eilítið skárri en ætti samt að halda áfram leiklistinni. Ég veit um allavega 5 fólk sem halda ekki vatni yfir þessari mynd, nefni engin nöfn en fyrstu stafirnir eru Anna, Palli, Lóa, Kos og Egill og hvað heillar þau svona mikið er mér alveg formunað að skilja. En smekkur manna er misjafn eins og þeir eru margir. Örugglega ekki margir sem skrifa Fried Green Tomatoes sem eina af uppáhaldsmyndum sínum. En sem sagt, minnstu munaði að ég tæki diskinn úr og bryti hann, en ákvað við nánari umhugsun að gefa einhverjum hann sem ekki á hann og langar í hann. Sem sagt tvöfaldur Moulin Rouge DVD diskur með hellings aukaefni fæst gefins fyrir hvern þann sem vill hirða hann!!

En jæja, ætli það sé ekki kominn tími á að reyna að leggja sig, annars er ég búinn að sofa meira og minna frá kl 05:00 til 00:24 í dag í veikindum mínum, vaknaði aðeins til að borða og horfa á Survivor.

Kannski ég kíki bara niðrá Esso eftir einhverjum hjáleiðum og kaupi mér kók og nammi og glápi á einhverja góða mynd, þar sem ég á ekkert eftir að sofna fyrr en á morgun hvort eð er.

Nýr bloggari

Halló, halló

Jæja þá er nýr bloggari fæddur og það er ég. Ég kann nú ekkert á þetta ennþá, en maður verður víst að reyna, þetta er eina leiðin til þess að ná athygli fólks sem ég þekki núorðið. Ekki veit ég hvað ég kem til með að blogga mikið en ætli ég verði "hooked" á þessu eins og flestir aðrir og bloggi svona 100 sinnum á dag svona til að byrja með allavega.

En fyrir ykkur sem ekki vita, þá heiti ég sem sagt Ingi Björn Jónsson og er 27 ára. Bý í Hafnarfirðinum og er BARA sáttur við það, temmilega langt frá ys og þys "stórborgarinnar" en samt innan Stórhafnarfjarðarsvæðisins. Soldið langt samt þegar maður er að taka leigubíl heim úr bænum en það skiptir engu máli því ég nenni ekkert að fara þangað lengur, búinn að komast að því að ég er hreinlega orðinn of gamall og löngu búinn að taka út minn skammt af skemmtanalífi borgarinnar sem ég vann við í 3 ár.

Núna er ég bara flugnemi á lokastigi og vinn hjá IGS í Keflavík. Fyrir þá sem ekki vita þá er það Icelandair Ground Services eða Iceland Ground Services fyrir þá sem ekki kunna við Icelandair.

En læt þetta duga sem kynningu í bili.