Inga Björns blogg

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Hér er bloggað enn á ný

Heil og Sæl og afsakið hvað líður langt á milli blogga......

......en sannleikurinn er sá að ég hef bara voða lítið að blogga um. Hitt er annað mál að nú hefur nóg gerst á síðustu dögum þannig að nú get ég bloggað um það.

Byrjaði síðustu viku á því að leigja mér The Notebook sem hinn hollenski Kos var búinn að mæla svona ægilega vel með. Ekki varð ég fyrir vonbrigðum með þá mynd, komst í góða snertingu við kvenlegu hliðina mína og grenjaði bókstaflega úr mér augun. Svona líka ægilega fín og sæt mynd með góðri og fallegri sögu.

Eftir að hafa komið augunum á sinn stað aftur skrapp ég með Siggeiri og hans stúlku Rakel, ásamt Önnu vinkonu til Ameríku eða nánar tiltekið Minneapolis. Þar versluðum við svona ægilega mikið og þá sérstaklega Siggeir og Rakel, en Anna var örlítið hógværari og ég jafnaðist á við nánös enda litlir peningar til í þessari ferð, geri bara betur næst. En þó fjárfesti ég í DVD útgáfunni af The Notebook svo ég gæti haldið áfram að æfa tilfinngasemi mína.

Annars var svona ægilega gaman í Minní, skoðuðum einhver ofboðslega há og fín háhýsi og þar með er allt talið sem hægt er að gera í þeirri borg. Fyrir utan mollið náttla. En þar skoðuðum við og keyptum helling af hlutum.

Hitt er annað mál að í Ameríku fór fólk hamförum í að hrósa okkur Önnu fyrir afburða fegurð. Það var nánast sama hvar við komum, þetta var altalað. Mest ræddum við þetta sjálf, en þó eins og áður hefur komið fram var minnst á þetta við okkur hvað eftir annað. Til dæmis stóðum við uppúr í WallMart en það er svo sem búð fátækra fata og hluta þannig að það er kannski ekkert skrýtið. Þannig að húrra fyrir Ameríkönum að hafa svona gott auga fyrir íslenskri eðalfegurð.

Ég vil nýta tækifærið og óska Jóa Magga til hamingju fyrir að láta reka sig úr hinum danska lýðháskóla sem hann var í, en það þykir mikið afrek, þar sem meðal Dani er ægilega ligeglad og þarf mikið að ganga á til að þeir æsi sig. Annars hef ég alltaf sagt að lýðháskólar eru bara fyrir háskólalýð og ekki flokkast Jói undir slíkan.

Meira seinna, vonandi með styttra millibili en gengur og gerist á þessu blessaða bloggi.

Ingi Björn